Ungliðar áberandi á aðalfundi Framsýnar

Fulltrúar ungliða innan Framsýnar kynntu fund ungs fólks sem haldinn var á vegum Starfsgreinasambandsins í tengslum við útvíkkaðan formannafund SGS í Grindavík 1.-2. júní 2016. Aðildarfélög SGS voru hvött til þess að senda tvo ungliða af sitt hvoru kyni til setu á fundinum en fulltrúar Framsýnar voru Aðalbjörn Jóhannsson og Sigurbjörg Arna Stefánsdóttir.

Tilgangur fundarins var annarsvegar að uppfræða og þjálfa ungliða en hinsvegar að útbúa vettvang ungs fólks innan SGS til þess að ræða hlutverk og stöðu sína innan verkalýðshreyfingarinnar. Á fundinum fengu ungliðar þjálfun í samningatækni og menningarvitund, fjölmiðlafærni og almannatengslum, fundarsköpum og fundasiðferði.
Á fundinum var slæm staða ungs fólks innan verkalýðshreyfingarinnar rædd og hvernig mætti bæta þar úr. Mikilvægi var lagt á nýjar leiðir til þess að ná til ungs fólks og þá sérstaklega í ljósi þess að aldursbundinn launamismunur er að aukast. Formenn aðildarfélaga voru minntir á að ungt fólk hefði ekki gleymt því hvernig gengið var á þeirra rétt og virðingu við gerð síðustu kjarasamninga og bentu á að ekkert samráð hefði verið haft við ungliða í þeirri vinnu. Úr því þyrfti að bæta og forystu verkalýðshreyfingarinnar treyst til þess að setja málefni ungs fólks í forgang við gerð næstu samninga.

Fulltrúar Framsýnar bentu á að Framsýn stæði framarlega meðal stéttarfélaga þegar aðgengi og félagsstolt ungs fólks væri rætt. Það væri þó alvarlegt misvægi á milli fjölda félagsmanna á aldrinum 16-30 ára annarsvegar og virkrar þátttöku þessa sama hóps í starfi félagsins hinsvegar. Það er mjög slæmt fyrir félagið enda má gera ráð fyrir að þessi aldur telji að minnsta kosti fjórðung félagsmanna. Það mátti ekki sjá á aðalfundi þar sem hlutfall ungs fólks var innan við 5%. Þessu vill félagið breyta og ræddu fulltrúar um nýja nálgun í tengslum við ungt fólk þar sem áhersla yrði lögð á jafningjavirkni í fræðslu og starfi, nútíma margmiðlun yrði beitt af auknum mæli, félagsstarf yrði aukið og ungliðastarf eflt. Ekki væri hægt að draga úr mikilvægi þess að ungt fólk upplifi kjarabaráttu sem persónulega enda yrði hún þá fyrst almenn meðal ungs fólk. Þá skipti einmitt máli að virkja ungt fólk á meðan það væri hluti af félaginu því þrátt fyrir að margt þeirra hverfi síðar meir í önnur félög þá væri ómetanlegur sá skilningur á kjarabaráttu launþega sem sæti eftir. Framsýn var einnig hvatt til þess að efla þátttöku sinna félagsmanna innan ASÍung.

Að lokum hvöttu fulltrúar ungliða innan Framsýnar félagið áfram í sínu hlutverki sem stoltur málsvari ungs fólks á vinnumarkaði. Framsýn ætti að vera í fararbroddi þegar kemur að réttindum og þátttöku ungs fólks, frumkvöðull og leiðandi og tryggja þannig stöðu félagsins sem ein sterkasta hreyfing launþega á landinu næstu ár og áratugi.

adalfundurfram0616 128

Aðabjörn og Sigurbjörg fóru yfir sýn ungs fólks á verkalýðsbaráttu.

Deila á