Framsýn ályktar um Húsavíkurflugvöll

Stjórn Framsýnar hefur samþykkt að senda frá sér ályktun um Húsavíkurflugvöll og hvetja til þess að hafist verði handa þegar í stað við lagfæringar á flugvellinum. Ekki síst í ljósi þess mikilvæga öryggishlutverks sem hann gegnir auk þess sem flugumferð um völlinn hefur stóraukist vegna framkvæmdanna sem tengjast Bakka og fjölgunar ferðamanna. Sjá ályktun:

Ályktun
um Húsavíkurflugvöll

„Um leið og stéttarfélagið Framsýn fagnar gríðarlegri aukningu á fjölda farþega um Húsavíkurflugvöll milli ára skorar félagið á flugmálayfirvöld og Isavia að hraða viðgerðum á vellinum til að auka öryggi flugumferðar um völlinn. Fyrir liggur að ljósabúnaður er ófullkominn og þá er aðkallandi að ráðist verði í lagfæringar á slitlagi flugbrautar.

Húsavíkurflugvöllur er ekki einungis notaður fyrir farþegaflug heldur gegnir hann mikilvægu öryggishlutverki varðandi sjúkraflug. Nú þegar miklar framkvæmdir eru að hefjast á Húsavíkursvæðinu sem tengjast uppbyggingu á orkufrekum iðnaði á Bakka er afar mikilvægt að öryggi Húsavíkurflugvallar verði tryggt sem best.“

Deila á