STH kallar eftir nánara samstarfi um starfsmannamál

Starfsmannafélag Húsavíkur stóð fyrir félagsfundi 27. ágúst um málefni félagsmanna. Fundurinn samþykkti að senda frá sér svohljóðandi ályktun um aðstæður og stöðu starfsmanna Norðurþings:

Ályktun
félagsfundar Starfsmannafélags Húsavíkur

Félagsfundur haldinn í Starfsmannafélagi Húsavíkur 27. ágúst 2015, hefur tekið til umræðu og ályktunar aðstæður og stöðu starfsmanna Norðurþings.

• Bæjarstjórn Norðurþings ákvað að selja og rýma húsnæði Þjónustustöðvar á Húsavík s.l. vetur, síðan hefur deildin búið við þröngar og óviðunandi starfsaðstæður.

• Takmarkað samráð og upplýsingaflæði hefur verið til starfsmanna um málefni þeirra og sveitarfélagins.

• Starfsmenn sveitarfélagsins hafa mátt þola fyrirvaralausan brottrekstur. Breytingar á verkefnum og rekstrarformum milli Norðurþings og tengdra aðila hafa verið ómarkvissar og valdið óöryggi hjá starfsfólki.

• Vegna þessa hafa starfsmenn upplifað óöryggi og vanlíðan í starfi, sem gæti hafa komið niður á líðan þeirra og framkvæmd verkefna og þjónustu sveitarfélagsins.

• Mat fundarins er að margar ákvarðanir sveitarfélagsins s.l. misseri gangi þvert gegn starfsmanna- og fjölskyldustefnu þess.

Fundurinn leggur áherslu á að málefni, verkefni og aðstæður starfsmanna Norðurþings fái betri og vandaðri umræðu á vettvangi Norðurþings. Starfsmenn óska eftir virkari þátttöku í umræðu, stefnumótun og ákvörðunum framtíðarverkefni/-þjónustu og starfsaðstæður hjá sveitarfélaginu. Markmiðið verður að auka og bæta framkvæmd þjónustunnar til heilla fyrir íbúa svæðisins og atvinnulíf svæðisins sem er á breytingarskeiði. Í þeirri vinnu þarf m.a. að huga að:

• Finna Þjónustustöðinni hentugt varanlegt húsnæði.

• Skilgreina verkefni og þjónustu stofnana sveitarfélagsins, íbúa og atvinnulíf.

• Efla samskipti, samvinnu, samráð og upplýsingaflæði milli starfsmanna sveitarfélagsins og stjórnenda þess.

• Starfsöryggi og hvetjandi starfsaðstæðum fyrir mannauð sveitarfélagsins.

Starfsmenn Norðurþings og fulltrúar þeirra lýsa sig reiðubúna í virkt samstarf um þetta efni og óska eftir fundi með fulltrúum Norðurþings við fyrstu hentugleika.

Deila á