„Lífið er gott.“

Það er komið fram í miðjan júní. Ég fylgist með kindum nágranna minna út um gluggann þar sem þær ráfa eirðarlausar fram og til baka með túngirðingunni í leit að glufu til að komast út. Teygja snoppuna út á milli möskvanna eftir gróðrinum sem vex utan girðingar. Þær þrá frelsið til fjalla og ég skil þær svo vel. Ég ber þessa sömu þrá í brjósti og líður hvergi betur en í óbyggðum. Þegar ég svo uppgötvaði ágæta leið til að njóta þessa áhugamáls míns þóttist ég himin hafa höndum tekið. Ég tók að mér skálavörslu fyrir Ferðafélag Fljótsdalshéraðs, í Húsavík (eystri) á síðasta ári og í Loðmundarfirði þetta árið. Vika í óbyggðum, hvað er hægt að biðja um það betra?

Það eru forréttindi að fá að vera skálavörður á stað eins og Loðmundarfirði, forréttindi að geta dregið sig út úr amstri hversdagsins og listin er að geta notið þess. Ég er flutt sjóleiðina á staðinn enda landvegurinn ennþá ófær. Tiltölulega einangruð, það er ávísun á fáa gesti og í hjarta mér er ég svo sem ekkert óánægð með það. Hugsa samt um hve það sé nú öfugsnúið að félagsleg einangrun sem líklega hefur valdið því að einhverju leiti að þessi afskekkta byggð fór í eyði skuli mér finnast eftirsóknarverð. Líklega eitthvað til í því sem einn ágætur vinur minn sagði við mig þegar hann vissi að ég ætlaði að dvelja heila viku í Loðmundarfirði: „Þú hefur nú heldur aldrei verið eins og annað fólk“.

Það eru örnefnaskrá Loðmundarfjarðarhrepps og Byggð og búseta í Loðmundarfirði sem eiga huga minn þessa vikuna. Engin tölva, ekkert sjónvarp, ekkert símasamband. Úrið mitt er „ einhversstaðar“ tíminn skiptir heldur engu máli. Víst gæti ég kveikt á langbylgjusendingu RUV, en tel nokkuð víst að Sigmundur Davíð og hörmungar heimsbyggðarinnar verði ennþá í fréttum þegar ég kem aftur til manna í næstu viku þannig að ég sleppi því að mestu. Sagan er hér. Mitt afþreyingarefni er sjálf náttúran og framhaldsþættir þessarar viku eru allir tengdir henni. Fyrsti þáttur hefst við sólarupprás, lífið vaknar og söngur fuglanna hefst. Það er sungið fagurlega í margrödduðum kór svo hrein unun er á að hlýða, tel mig aldrei hafa heyrt jafnfallegan söng. Ég dorma enn um stund og hlýði á ljúfa tóna sem fljótlega seiða mig á fætur og gefa mér fyrirheit um góðan dag. Það er kominn morgun og tímabært að njóta þess sem fyrir augu ber.

Fleiri fastir þættir eru á dagskránni, það er þáttur maríuerlunnar sem spígsporar svo kotroskin framan við húsið og á ungana sína í hreiðri nánast við tærnar á mér. Hún er stressuð, verpti í gasskápinn utan á húsinu og átti alls ekki von á gestum. Ég reyni að gera mitt besta til að láta okkur semja og hún róast með hverjum deginum. Það er þáttur spóans sem vellir grautinn sinn hér niðri í mýrinni, þáttur stelksins sem nikkar höfðinu svo skemmtilega og minnir á einn ónefndan frænda minn. Öll mófuglaflóran er samankomin við tónleikahald, þar er boðið til veislu. Svo er það er þáttur kríunnar sem ver óðal sitt og afkvæmi af mikilli grimmd og hikar ekki við að höggva fólk í höfuðið ef svo ber undir, drullar jafnvel yfir mann í orðsins fyllstu merkingu ef henni sýnist svo. Kóngulóin á líka sinn þátt, hún spinnur fagurlegan vef, hann glitrar í morgundögginni sem þvær nýútsprungið lyngið. Það eru ótal þættir í gangi, en það þarf að kunna að sjá þá.

Hreindýrin tilheyra Lommfirsku flórunni, hjarðir sem birtast, en hverfa jafnóðum á harðastökki, hópar af törfum, kýr með kálfum, ekki sérlega félagslynd og eru fljót að stökkva af stað er þau verða manns vör. Gaman að laumast nærri þeim og liggja grafkyrr í ilmandi lynginu og fylgjast með hjörðinni. Líklega kallast það atferlisrannsóknir og andartak finnst mér ég vera stödd í dýralífsþætti Attenborough. Finn enga löngun til að fækka í hópnum, nýt þessara tignarlegu skepna betur svona.

Það er sérstæður blámi fjallanna, sagan , árnar og fossarnir sem heilla mig. Ég finn spennandi gönguleiðir daglega, gleymi stað og stund og þvælist eins og villuráfandi sauður um Hraundalinn, sé þar alltaf eitthvað nýtt sem gleður huga minn. Það er margs að njóta. Á kvöldin læðist þokan inn fjörðinn og sveipar umhverfið dulúð genginna kynslóða. Það hvílir stóísk ró yfir útigengnum ánum sem jórtra á bakkanum handan árinnar, þær taka á sig undarlegar myndir í kvöldhúminu. Þær eru að ganga úr reyfinu og með flaksandi ullarflókann draga þær fram úr huga bernskunnar myndir af fjörulöllum og skeljaskrímslum. Um lágnættið hljóðnar söngur fuglanna og ekkert heyrist nema niður árinnar sem rennur sinn farveg til sjávar líkt og hún hefur gert um aldir. Ég leggst á koddann, loka augunum og svífandi inn í draumalandið hugsa ég : „Lífið er gott.“
Ósk Helgadóttir


Deila á