Starfsgreinasambandið í forystuhlutverki sambanda ASÍ

Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með samstöðunni sem ríkt hefur innan aðildarfélaga Starfsgreinasambandsins í þeim kjaraviðræðum sem staðið hafa yfir undanfarna mánuði.

Á vegum sambandsins fór fram mikil undirbúningsvinna sem fólst í því að aðildarfélögin skiluðu inn sínum kröfum sem síðan var unnið úr og mótuð endanleg kröfugerð sem lögð var fyrir Samtök atvinnulífsins. Að sjálfsögðu var tekist á um áherslur í kröfugerðinni meðal félaganna en að lokum var hún samþykkt samhljóða.

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum tóku Samtök atvinnulífsins fálega í kröfur Starfsgreinasambandsins um 300.000 króna lágmarkslaun innan þriggja ára. Önnur aðildarsambönd Alþýðusambandsins komu fram með sínar kröfur í kjölfarið sem mótuðust að kröfugerð Starfsgreinasambandsins.

Eftir árangurslausar viðræður við Samtök atvinnulífsins í gegnum ríkissáttasemjara sleit Starfsgreinasambandið viðræðum og boðaði til verkfallsaðgerða sem hefjast eiga 30. apríl verði verkfallsboðunin samþykkt í atkvæðagreiðslu sem nú stendur yfir og lýkur annað kvöld, mánudag.

Starfsgreinasambandið hefur haldið áætlun og ætlar sér ekki að láta Samtök atvinnulífsins komast upp með að senda verkafólki fingurinn öllu lengur, sá tími er liðinn.

Á vegferð Starfsgreinasambandsins að settu marki, það er að ná takmarkinu um 300.000 króna lágmarkslaun hafa aðildarfélög sambandsins staðið saman og vonandi verður svo til enda. Annað kemur ekki til greina.

Já, það ber að gleðjast yfir þeirri samstöðu sem er innan Starfsgreinasambandsins og vitað er að Samtök atvinnulífsins reiknuðu með því að samstaðan brysti innan félaganna líkt og var í síðustu kjarasamningum.

Þá ber einnig að gleðjast yfir því forystuhlutverki sem Starfsgreinasambandið hefur gegnt. Önnur aðildarsambönd Alþýðusambandsins hafa frá upphafi elt Starfsgreinasambandið, hvað varðar mótun kröfugerðar, vísun til ríkissáttasemjara og nú berast fréttir að því að nokkur aðildarfélög Alþýðusambandsins sjái fyrir sér verkfallsaðgerðir líkt og Starfsgreinasambandið ætlar sér síðar í þessum mánuði.

Rúsínan í pylsuendanum er svo sú staðreynd að Starfsgreinasambandið hefur fengið jákvæða og góða kynningu í fjölmiðlum. Nú vita menn betur um tilvist sambandsins og almenningur í landinu hefur fullan skilning á kröfum sambandsins um 300.000 króna lágmarkslaun innan þriggja ára. Á sama tíma blæs fólk á yfirlýsingar formanns Samtaka atvinnulífsins um að ekki sé vilji meðal þjóðarinnar að hækka lægstu launin sérstaklega umfram önnur laun. Svo ekki sé talað um þau ósmekklegu orð sem hann viðhafði á ársfundi Samtaka atvinnulífsins þegar hann líkti verkafólki við laumufarþega sem viltu rífa sig frá öðrum hópum launafólks, HALLÓ!!

Sömu samtök bjóða verkafólki 3,5% launahækkun meðan t.d stjórnendur HB-Granda og VÍS tóku sér allt að 75% launahækkanir á stjórnarlaun auk þess sem stjórnendur HB-Granda tóku sér 2,7 milljarða í arðgreiðslur. Þessi mynd sem blasir við er svolítið undarleg, í hvaða heimi búa þessir menn, eru þeir ekki í netsambandi?

Stöndum saman félagar og kjósum í atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls sem lýkur kl. 24:00, mánudaginn 20. apríl.

Aðalsteinn Árni Baldursson
formaður Framsýnar, stéttarfélags

Deila á