Allt klárt fyrir atkvæðagreiðsluna

Starfsmenn stéttarfélaganna og aðstoðarfólk hafa unnið að því í dag að ganga frá kjörgögnum vegna atkvæðagreiðslu um boðun verkfalls. Kjörgögnin fóru í póst rétt fyrir lokun hjá póstafgreiðslunni á Húsavík og munu berast um 500 félagsmönnum Framsýnar eftir helgina. Atkvæðagreiðslan sem verður rafræn nær til félagsmanna Framsýnar sem starfa eftir almenna kjarasamningnum og kjarasamningi starfsmanna í ferðaþjónustu. Þeir félagsmenn sem telja sig hafa kjörgengi, en fá ekki í hendur kjörgögn í byrjun næstu viku, eru beðnir um að snúa sér til Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík.

Það var allt á fullu í dag á Skrifstofu stéttarfélaganna og sjálfboðaliðar komu að því að ganga frá kjörgögnum í póst fyrir lokun póstafgreiðslunnar í dag.

Í sakleysi sínu kom Auður Aðalbjarnardóttir í heimsókn á Skrifstofu stéttarfélaganna í dag til að heimsækja systur sína sem starfar hjá stéttarfélögunum, nýkomin frá Reykjavík með flugi til Húsavíkur. Að sjálfsögðu var hún dregin í vinnu við að ganga frá kjörgögnunum í umslög. Takk fyrir Auður.

Sigrún og Sigurveig stóðu sig vel í dag enda  harðduglegar konur. Þær eru báðar í trúnaðarmannaráði Framsýnar.

Deila á