Áhugalausir SA menn – fundað í dag

Ríkissáttasemjari boðaði til fundar í dag með fulltrúum Samtaka atvinnulífsins og Starfsgreinasambands Íslands. Skemmst er frá því að segja að lítið nýtt kom fram á fundinum enda halda forsvarsmenn Samtaka atvinnulífsins sig við gömlu tugguna um að ekkert svigrúm sé til hækkana hjá verkafólki sem er með rúmlega tvöhundruð þúsund krónur á mánuði. Í ljósi þess er athyglisvert að lesa frétt DV í dag um launakjör forsvarsmanna SA sem velta í flestum tilfellum milljónum á hverjum mánuði í laun. Ef þetta er ekki siðblinda er ekki til siðblinda. Það ánægjulega er að verkafólk er tilbúið í átök, það mun ekki láta bjóða sér þetta lengur. Er til dæmis eðlilegt að Grímur Sæmundsen forstjóri Bláa lónsins og stjórnarmaður í SA sé með um 6,4 milljónir í laun á mánuði eins og fram kemur í DV. Laun hans jafngilda launum 30 verkmanna á lægsta taxta Starfsgreinasambandsins og Samtaka atvinnulífsins.

Á fundinum í dag sem ríkissáttasemjari boðaði til var ekki talin ástæða til að hittast aftur fyrir páska og næsti reglulegi fundur er boðaður þriðjudaginn 7. apríl. Í dag stefnir því allt í verkfall þann 10. apríl hjá verkafólki sem hafnar brauðmolavæðingu Samtaka atvinnulífsins.

Miðað við viðbrögð Samtaka atvinnulífsins berst þetta fólk fyrir hækkun lægstu launa, ótrúlegt en satt.

Deila á