Við viljum lifa

Varaformaður Framsýnar, Ósk Helgadóttir, skrifar grein í Fréttabréf stéttarfélaganna sem kemur út á morgun. Hér má lesa greinina sem fjallar um kjaramál og hugsanlega átök á vinnumarkaðinum.

Landsbyggðarfélögin innan Starfsgreinasambandsins alls 16 stéttarfélög hafa undanfarna mánuði mótað kröfugerð vegna komandi kjaraviðræðna. Þau hafa nú sett fram sameiginlega launakröfu. Í kröfugerð sambandsins sem semur fyrir rúmlega 12 þúsund félagsmenn eru lagðar sérstakar áheyrslur á krónutöluhækkanir og endurskoðun á launatöflu sem taki mið af menntun og starfsreynslu. Kröfugerðin byggir jafnframt á því að lágmarkslaun verði 300.000 innan þriggja ára.

Það var ljóst um leið og SGS bankaði á dyr hjá Samtökum atvinnulífsins í lok janúar og kynnti sínar kröfur að þar á bæ hefðu menn allt aðrar hugmyndir um þarfir láglaunafólks til lífsafkomu. Þar var öllum dyrum snarlega lokað og grátkórnum hóað saman til hefðbundinna söngæfinga. Velæfður kórinn þandi raddböndin sem enginn væri morgundagurinn og gamalkunn stefin ómuðu á öldum ljósvakans. Og hafi menn ekki vitað það fyrir þá er það nú lýðum ljóst að:,, launahækkanir verkalýðsins leiða til verðbólgu, það er þörf á þjóðarsátt og hóflegar launahækkanir mynda stöðugleika.“ En það skal ítrekað að það á einungis við ef hækka á launin hjá þeim sem minnst hafa. Kunnuglegur söngur, en jafnvel bestu kórar hætta að vera áheyrilegir ef ekki er skipt reglulega um prógramm.

Ógjörningur að lifa af lægstu laununum
Kennarar, flugmenn og nú síðast læknar eru í hópi þeirra starfstétta sem undanfarið hafa fengið umtalsverðar kjarabætur og er það vel. Það var talað um að þær stéttir hefðu fengið leiðréttingu á sínum launum. Stjórnendur fyrirtækja hækka sín laun kinnroðalaust og afkoma þeirra atvinnugreina sem teljast undirstaða atvinnulífsins hefur sjaldan verið betri. Því er það með öllu óskiljanlegt að þegar röðin kemur að verkafólki skuli þær krónur sem eftir eru á kistubotninum hafa annað vægi. Því skyldi réttlát krafa fiskvinnslukonunnar um lágmarks lífsafkomu frekar leiða til óstöðugleika í efnahagslífinu heldur en áðurnefndar launahækkanir? Það má öllum vera ljóst að í veruleika dagsins í dag er ógjörningur að lifa á lægstu launum, en þeir taxtar eru á bilinu 201.000 kr. til 238.000 kr.

Til eru opinber viðmið sem taka mið af framfærsluþörf einstaklinga. Því skyldi maður ætla að sú krónutala hljóti að vera til viðmiðunnar við gerð kjarasamninga. En krafan um 300.000 þúsund króna mánaðarlaun er einungis skref þá átt. 300.000 króna laun gefa 246.000 krónur í vasann þegar búið er að greiða skatta og skyldur. Rétt er að taka fram að sú tala er undir áðurnefndum neysluviðmiðum. Íslenskt verkafólk gerir kröfu um það að geta lifað af launum sínum og 300.000 króna laun á mánuði er langt frá því að vera óraunhæft. Krafan er sett fram fyrir hönd fólksins á gólfinu, fólksins sem þrælar myrkranna á milli fyrir launum sem eru fyrir neðan allt velsæmi. Hún er mótuð af fólkinu sjálfu, á vinnustöðum og á fundum í félögunum um land allt.

„Afl í okkar þágu“
Baráttan fyrir bættum kjörum alþýðunnar er ekki nýtilkomin og þau réttindi sem okkur þykja í dag sjálfsögð og eðlileg kostuðu forvera okkar þrotlausa baráttu. Ég nefni hér uppsagnarrétt, orlofsrétt, hvíldarákvæði, atvinnuleysistryggingar, lífeyrisréttindi og réttindi til launa í veikindum. Þessi réttindi voru ekki sjálfgefin, þau kostuðu fórnir og urðu til við samstöðu íslensks alþýðufólks.

Mikill hugur er innan raða verkafólks að sækja leiðréttingu sinna launa, en til þess að slíkt megi takast þurfum við samstöðu. Verkalýðshreyfingin er fjölmenn hreyfing og við sem hana skipum þurfum að átta okkur á því að baráttan veltur ekki eingöngu á þeim sem sitja við samningaborðið fyrir okkar hönd. Við þurfum líka að taka þátt, öll sem eitt. Vopn okkar er máttur, það er ,,samtakamáttur fólksins“ sem þjappar okkur saman og með hann að leiðarljósi getum við barist fyrir mannsæmandi lífskjörum. Gleymum ekki að við erum,,aflið“sem þarf að standa við bakið á okkar fólki, það eru okkar hagsmunir sem eru í húfi.

Verkalýðshreyfingin er „afl í okkar þágu“ en til þess að svo megi vera þurfum sjálf að leggja okkar af mörkum.

Ósk Helgadóttir,
varaformaður Framsýnar

Aflið er fólgið í samstöðunni segir varaformaður Framsýnar, Ósk Helgadóttir í aðsendri grein.

Deila á