Framsýn ályktar um stöðu kjarasamninga

Framsýn, stéttarfélag hefur samþykkt að senda frá sér meðfylgjandi ályktun um stöðu kjarasamninga aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífisins sem undirritaðir voru í desember 2013. Framsýn á aðild að samningunum. Á sínum tíma varaði Framsýn við undirritun þeirra þar sem þeir væru ekki boðlegir verkafólki. Nú hafa áhyggjur félagsins gengið eftir þar sem aðrir hópar launafólks hafa fengið töluvert meiri launahækkanir en félagsmenn Alþýðusambands Íslands. Stöðugleiki er ekki í augsýn. Í ljósi þessara staðreynda samþykkti Framsýn að senda frá sér svohljóðandi ályktun: 

Ályktun
Um kjaramál 

„Fyrir liggur að kjarasamningar aðildarfélaga ASÍ sem undirritaðir voru í desember 2013 eru kolfallnir. Kjarasamningarnir byggðu á því að breið samstaða næðist í samfélaginu um stöðugleika og hóflegar launahækkanir til að halda niðri verðbólgu. 

Ljóst er að aðrir hópar launþega eru ekki klárir í þessa vegferð og hafa krafist og fengið margfalt þær hækkanir sem félagsmenn innan ASÍ fengu í desember. 

Framsýn, stéttarfélag telur að ekkert annað komi til greina en að aðildarfélög ASÍ krefjist þess sama fyrir sína umbjóðendur í næstu kjarasamningum og aðrir hópar launafólks hafa fengið í launahækkanir undanfarnar vikur og mánuði. 

Framsýn, stéttarfélag vill mynda breiða samstöðu innan aðildarfélaga ASÍ um þetta markmið, það er að koma í veg fyrir að félagsmenn innan ASÍ sitji enn og aftur eftir meðan aðrir hópar launafólks skammta sér vel á diskana  í boði samtaka atvinnurekenda. Slíkt athæfi er ólíðandi með öllu.“

 Framsýn hefur samþykkt að senda frá sér áltykun um kjaramál. Ályktunin var samþykkt á stjórnarfundi.

Deila á