Uppskipun á hótelherbergjum!

Í gær var hótelherbergjaeiningum í nýtt hótel í Mývatnssveit skipað upp í Húsavíkurhöfn. Hótelið sem er í landi Arnarvatns hefur fengið nafnið Hótel Laxá og er um 3000m² bygging. Loftorka og verktakinn Reynir Ingvason, kenndur við Brekku í Aðaldal, hafa unnið að því að reisa þjónusturýmið. Herbergin 80 koma hins vegar í einingum frá Noregi og koma í tvennu lagi. Fjörutíu herbergi komu með skipinu sem verða flutt upp í Mývatnssveit á næstu dögum. Annað skip er væntanlegt í næstu viku með önnur fjörutíu herbergi. Herbergin eru tveggja manna með baði.  Ljóst er að nýja hótelið verður glæsilegt í alla staði. Hótel Laxá verður opnað fyrir gestum upp úr miðjum júní í sumar.

Hótelherbergjum skipað upp á Húsavík í gær. Annað skip er væntanlegt með fleiri einingar í næstu viku.

Framkvæmdir við hótelið hafa verið í fullum gangi í vetur og hafa verktakarnir ekki látið vetrarveðrið hafa áhrif á sig enda hörkumenn þar á ferð.

Margrét Hólm Valsdóttir verður hótelstjóri á Hótel Laxá.

Deila á