Mikið fjölmenni á hátíðarhöldunum á Húsavík

Nú kl. 14:00 hófst hátíðardagskrá í Íþróttahöllinni á Húsavík á vegum stéttarfélaganna í Þingeyjarsýslum. Mikið fjölmenni er samankomið og mikill baráttuandi er á samkomunni. Boðið er upp á fjölbreyta dagskrá. Ræðumaður dagsins er Elín Björg Jónsdóttir formaður BSRB. Hér má lesa ræðuna. Fleiri fréttir og myndir verða á heimasíðunni síðar í dag.

Kæru félagar.

Til hamingju með daginn.

Það er sannur heiður að fá að vera komin hingað til Húsavíkur til að verja þessum degi með ykkur.

Baráttudagur verkalýðsins skipar sérstakan sess í mínu hjarta og það sama má segja um Þingeyjarsýslurnar því hingað á ég ættir að rekja. Og raunar tengi ég Húsavík og verkalýðsbaráttuna alltaf á vissan hátt saman því langamma mín, Helga Þorgrímsdóttir, var fædd og uppalin í Aðaldalnum og var ein þeirra kvenna sem stofnaði Verkakvennafélagið Von árið 1918.

Þar sat hún í stjórn frá stofnun og allt fram til ársins 1944.

Önnur merkis kona, Björg Pétursdóttir, sem sömuleiðis kom að stofnun Verkakvennafélagsins Vonar og var vinkona langömmu minnar orti á sínum tíma ljóð um Húsavík sem mér þykir alltaf mjög vænt um:

 

Hér er friðsælt föðurland

Flestir önnum kafnir.

Hér þarf hvorki hjálm né brand

Hér eru allir jafnir.

Þessar ljóðlínur fanga á einstakan hátt anda verkalýðsbaráttunnar og anda þess sem við viljum að einkenni samfélag okkar – „Friðsæld – þar sem jöfnuður ríkir“.

í ljóðinu talar Björg um að „flestir séu önnum kafnir“ og að „allir séu jafnir“

En  því miður vitum við að það er ekki alveg svo gott. Það eru ekki allir sem eru önnum kafnir því atvinnuleysið er mikið.

Og við erum ekki öll jöfn því enn eru störf fjölmargra stétta ekki metin að  verðleikum og enn mælist munur á launum karla og kvenna í sambærilegum störfum.

En okkur miðar áfram í rétta átt og þótt okkur þyki ástandið óásættanlegt í dag er rétt að hafa í huga að ástandið á Íslandi er langt um betra en þegar þessar ljóðlínur voru settar á blað, snemma á síðustu öld.

———————-

Á baráttudegi verkalýðsins er við hæfi að líta um öxl og minnast þess sem þegar hefur áunnist.

Á síðustu öld lagði verkalýðhreyfingin með fórnfýsi og óeigingjarnri baráttu grunninn að nútíma samfélagi. Þessi átök milli launafólks og atvinnurekenda kostaði fólk oftar en ekki vinnuna, og þar með aleiguna.

En með óbilandi trú og samstöðu hélt það baráttunni áfram þótt mótbyrinn væri oft mikill.

Þessi barátta snérist um grundvallarréttindi eins og hvíldartíma, félagafrelsi, lífeyrisréttindi og samningafrelsi –réttindi sem í dag þykja sjálfssögð.

Það má með sanni segja að ef ekki hefði verið fyrir verkafólki fyrri tíma og þrotlausa baráttu þeirra byggjum við ekki við það velferðarkerfi sem við búum við í dag.

Grunnurinn að velferðarþjóðfélagi nútímans var lagður af verkafólki síðustu aldar og það er öllum hollt að vita að fórnir genginna kynslóða voru miklar til að svo gæti orðið.

—————————

En forfeður okkar hefðu aldrei náð fram öllum þessum umbótum ef ekki hefði verið fyrir samstöðu þeirra.

Þeir lögðu það litla sem sundraði þá til hliðar og einblíndu á hið sameiginlega markmið og það sem mestu máli skipti – að bæta kjör fólksins í landinu.

Samtakamátturinn var öðru fremur það sem skilaði árangrinum.

—————————–

En 1. maí er ekki bara minningarhátíð.   —-  1. maí er baráttudagur.

Hann er baráttudagur, vegna þess að barátta launafólks heldur sífellt áfram.

Og baráttan hefur sjaldan verið mikilvægari en einmitt nú þegar þeirri samfélagsgerð sem forfeður okkar komu á, þrátt fyrir bágindi og kröpp kjör, er ógnað.

Niðurskurður, uppsagnir og kjaraskerðingar hafa einkennt þessi ár eftir efnahagshrunið.

Velferðarkerfið eins og það leggur sig er í hættu og því megum við aldrei fórna.

———————-

Það er óumdeilt að öflugt velferðarkerfi skilar samfélaginu meiru en það tekur. Öflugt velferðarkerfi stuðlar að auknu jafnræði á meðal fólks, til dæmis með því að gefa fólki jafna möguleika til menntunar.

Menntun leiðir til betri launa og jafnari tækifæra sem um leið fela í sér meiri tekjur fyrir ríkið. Menntun er því grundvallarforsenda fyrir sjálfbærum hagvexti og framþróun þjóðarinnar.

Útgjöld til heilbrigðismála er önnur grundvallarforsenda hagvaxtar og framfara. Því ef heilsa fólks er góð gerir það því kleift að vinna lengur og skila frekar til samneyslunnar.

Umönnun aldraðra og barna skiptir líka sköpum og veitir fleirum möguleika á að vinna og leggja þannig til samfélagsins.

Að verja fjármunum í velferð er þess vegna góð fjárfesting. Heilt yfir hagnast samfélagið allt á því að sem flestir séu á vinnumarkaði.

Þeir sem vinna greiða skatta   –    skatta sem fara í að greiða fyrir umönnun, heilbrigðisþjónustu og menntun sem á endanum skilar sér í meiri tekjum ríkisins.

-Og þannig er hægt að stuðla að stöðugum framförum.

—————

En grunnforsenda þess að hægt sé að halda uppi góðu velferðarkerfi er hátt atvinnustig. En landsmenn allir, og ekki síst íbúar utan höfuðborgarsvæðisins líkt og þið hér á Húsavík þekkið mæta vel, vantar talsvert þar upp á.

Langtímaatvinnuleysi – hugtak sem vart þekktist á Íslandi fyrir fjórum árum síðan – er nú orðið staðreynd.

Brýnasta verkefni stjórnvalda í dag er þess vegna að búa svo um að atvinnulífinu gefist færi á að blómstra.

Atvinnan er undirstaða alls hér á landi og án hennar getum við ekki haldið uppi velferðarkerfi. Og þetta tvennt – hátt atvinnustig og velferðarkerfi – verða að haldast í hendur.

Þegar atvinnustigið minnkar skapar það mikinn þrýsting á velferðarkerfið. Með auknu atvinnuleysi minnkar innkoma hins opinbera og útgjöld aukast.

Aðalverkefni stjórnvalda er þess vegna að sjá til þess að atvinnustigið sé hátt til að jafnvægi sé á kerfinu. Atvinna skapar ríkinu tekjur og því fleiri sem eru á vinnumarkaði þeim mun meiri eru tekjurnar. Og fyrir tekjurnar rekum við svo almannaþjónustuna.

———————-

Atvinnuuppbygging og almannaþjónusta eru í raun nátengd.

Einn mikilvægasti þáttur almannatrygginganna er nærþjónustan og að sama skapi er það mikilvægt að fólk geti sótt atvinnu nærri sinni heimabyggð.

Með því að leggja heilbrigðisstofnanir í minni byggðarlögum af er ekki aðeins verið að fækka störfum á þeim stöðum heldur einnig skerða lífsgæði þeirra sem þar búa.

Og þegar lífsgæðin rýrna fer fólkið að hugsa sér til hreyfings. Þegar fólk flytur á brott, hvort sem er frá dreifbýli til þéttbýlis eða frá Íslandi til útlanda – fer keðjuverkun af stað sem getur haft miklar og varanlegar neikvæðar afleiðingar fyrir þjóðina.

Fjölbreytt atvinnuuppbygging verður að eiga sér stað á landinu öllu til þess að lífvænlegt sé í öllum byggðum landsins og á landinu yfir höfuð.

Velferðarkerfið verður að vinna samhliða atvinnuþróun og aðeins í sameiningu geta þessir tveir grunnþættir veitt íbúum landsins öryggi og umönnun samhliða því að stuðla að hagvexti og batnandi lífskjörum.

En til þess að endar nái saman verða stjórnvöld að búa þannig um hnútanna að sem flestir hafi tækifæri til að vinna. Annars gengur dæmið ekki upp.

Þess vegna er vinna mikilvægasta velferðarmálið.

—————–

Nú eru erfiðari tímar en oft áður og því enn mikilvægara að sýna samstöðumátt okkar í verki.

Við verðum að hafa hugfast að á fyrri hluta síðustu aldar tókst verkalýðshreyfingunni að innleiða þann hugsunarhátt að samfélagið allt beri ábyrgð á því að framfleyta þeim sem ekki höfðu tök á því sjálfir.

Þetta er enn grunnhugsun í okkar samfélagi og sú stoð sem velferðarhugsjónin hvílir á.

Þetta tókst með samtakamættinum, jafnvel þótt að kjörin hafi þá verið mun lakari en þau eru nú.

Samstaðan er eina vopn launafólks og því vopni verðum við að beita um ókomin ár.

Það er trú mín að bjartari tímar séu framundan á Íslandi.

Landið er fullt af allsnægtum – ríkum auðlyndum og verkfúsu fólki sem bíður þess eins að fá að taka til hendinni, samfélaginu til heilla.

—————————

Nú er tími samstöðunnar og sú samstaða verður að ná til samfélagsins alls.

Verkalýðshreyfingin verður að standa saman.

Karlar og konur verða að standa saman.

Ungir og aldnir verða að standa saman.

Þéttbýli og landsbyggð verða að standa saman.

Við verðum öll að standa saman um velferðarkerfið.

Við verðum öll að standa saman um atvinnuuppbyggingu.

Með samstöðuna að vopni getum við byggt upp betri framtíð fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir.

Þannig erum við fær um að sýna í verki að við erum samfélag sem vinnur fyrir hag heildarinnar en ekki einstaklinganna.

Með samtakamættinum eru okkur allir vegir færir.

—————————–

Kæru félagar.

Ég þakka fyrir tækifærið fyrir að fá að vera með ykkur hér í dag.

Megið þið eiga gleðilega hátíð.

Megið þið eiga gleðilegan fyrsta maí.

Deila á