Fagna flugi til Húsavíkur

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar samþykkti á fundi sínum í kvöld að senda frá sér ályktun varðandi flugsamgöngur við Húsavík en Flugfélagið Ernir hefur ákveðið að hefja áætlunarflug til Húsavíkur í vor. Ályktunin er svohljóðandi: 

Ályktun
Um flug til Húsavíkur 

Framsýn- stéttarfélag fagnar því sérstaklega að Flugfélagið Ernir hafi ákveðið að hefja áætlunaflug frá Reykjavík til Húsavíkur 15. apríl næstkomandi. Flugfélagið hefur yfir að ráða öflugum 19 manna flugvélum sem henta vel til innanlandsflugs. 

Þrátt fyrir að flugfélagið hafi gefið út að áætlunarfluginu sé ætlað að standa til 30. september bindur Framsýn miklar vonir við að framhald verði á áætlunarfluginu enda verði nýtingin á fluginu góð.

Öflug ferðaþjónusta og fyrirhuguð uppbygging á orkufrekum iðnaði í Þingeyjarsýslum kalla á góðar samgöngur til og frá svæðinu, ekki síst í lofti. Þá er mikilvægt að heimamenn verði duglegir að nýta sér þennan nýja ferðamáta frá Aðaldalsflugvelli, enda fylgir honum bæði tíma- og fjárhagslegur sparnaður á ferðalögum.

Deila á