Atvinnumál, Grímsstaðir og málefni SGS til umræðu í kvöld

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar kom saman til fundar síðdegis í dag. Helstu málefni fundarins voru atvinnumál í héraðinu, kaup Huang á Grímsstöðum og málefni Starfsgreinasambands Íslands.

Á fundinum var samþykkt greinagerð er varðar stöðu og framtíð Starfsgreinasambandsins að mati Framsýnar. Fyrir nokkru óskaði Starfsháttanefnd Starfsgreinasambandsins eftir áliti frá aðildarfélögum varðandi framtíð sambandsins sem verið hefur í ákveðinni óvissu vegna innri átaka. Þá urðu miklar umræður um atvinnumál og töldu fundarmenn ástæðu til að álykta um málið þar þeir sjá fyrir sér ýmsa jákvæða hluti vera að gerast í Þingeyjarsýslum enda verði rétt haldið á málum. Þá urðu einnig góðar umræður um hugsanleg kaup Huang á Grímsstöðum sem eru að mestu á félagssvæði Framsýnar og því koma félagsmenn Framsýnar til með að starfa við ferðaþjónustuna á Grímsstöðum verði hún að veruleika. Almennt voru fundarmenn jákvæðir fyrir kaupunum en þó komu einnig fram skoðanir um að menn ættu að fara sér hægt í málinu þar sem lítið væri vitað um kínverska fjárfestinn. Samþykkt var að óska eftir fundi með honum varðandi hugsanlega uppbyggingu ferðaþjónustu á Grímsstöðum á næstu árum.

Eftirfarandi ályktun var samþykkt á fundinum um atvinnumál:

„Í Þingeyjarsýslum er geysifögur náttúra, gott framtakssamt fólk og gnægð annarra auðlinda. Mikil undirbúningsvinna í atvinnumálum hefur staðið yfir á svæðinu á vettvangi heimamanna, stjórnvalda,  sveitarfélaga og fyrirtækja sem nú virðist ætla að skila tilætluðum árangri. 

Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar – stéttarfélags fagnar jákvæðum fréttum um áhuga framtakssamra aðila á að auka umsvif á svæðinu og nýta til þess umhverfi, hugvit og auðlindir svæðisins í sátt við umhverfið.

Mikill kraftur er nú í undirbúningi að uppbyggingu orkufreks iðnaðar á Bakka við Húsavík. Bæði stór og meðalstór fyrirtæki hafa sýnt því áhuga að setja niður atvinnustarfsemi á Bakka. Samfara þessu er nú unnið að vegagerð á Reykjaheiði og borunum á Þeistareykjum sem vonandi leiða til þess að framkvæmdir við byggingu orkumannvirkja hefjist á Þeistareykjum og í Bjarnarflagi sem fyrst.

Jafnframt  eru uppi áform um stórfellda uppbyggingu ferðaþjónustu, s.s. á Grímsstöðum á Fjöllum, auk þess sem flugfélagið Ernir mun hefja áætlunarflug til Húsavíkur næsta vor sem eru mikil gleðitíðindi, ekki síst fyrir ferðaþjónustuna. Þá er unnið að frekari endurbótum á samgöngukerfinu í Þingeyjarsýslum s.s. með Vaðlaheiðargöngum. Samhliða þessu virðast gróin fyrirtæki í sjávarútvegi og landbúnaði halda sínu, sem eru grunnstoðir atvinnulífsins í héraðinu.

Framsýn – stéttarfélag hvetur stjórnvöld og aðra til að vinna þétt og styðjandi við þá aðila sem vinna að því að styrkja og bæta atvinnu- og mannlíf í Þingeyjarsýslum. Verði rétt haldið á málum verða Þingeyjarsýslur á komandi árum eitt heitasta svæðið til atvinnuuppbyggingar á Íslandi sbr. áhuga fjárfesta á að setja niður öfluga atvinnustarfsemi í Þingeyjarsýslum.“

Deila á