Kjarasamningur LÍV og SA 2011

Skrifað var undir kjarasamning LÍV og Samtaka atvinnulífsins þann 5. maí 2011.  Hann nær til þeirra félagsmanna Framsýnar sem eru við verslunar- og skrifstofustörf.  Samningurinn er til þriggja ára að því gefnu að stjórnvöld uppfylli þær kröfur sem til þeirra eru gerðar.  Samningurinn gerir ráð fyrir 50 þúsund króna eingreiðslu í júní og álag á orlofs- og desemberuppbætur.  Almennar  launahækkanir á næstu þremur árum eru 11,4%, lágmarkslaun verða 182 þúsund í júní  2011 og 204 þúsund árið 2013.

Samningur LÍV og SA er til þriggja ára eins og aðrir samningar milli aðildarsamtaka ASÍ og SA. Ákveðinn fyrirvari er á samningum sem tengist stjórnvaldsaðgerðum og lagabreytingum sem þurfa að eiga sér stað fyrir 22. júní 2011. Ef þær forsendur sem snúa að stjórnvöldum standast ekki gildir samningurinn til 1. febrúar 2012. Í samningnum eru einnig hefðbundin forsenduákvæði varðandi launahækkanir árin 2012 og 2013.

Hér að neðan er stiklað á stóru í samningnum en hér má sjá samninginn, þ.e. þær breytingar sem gerðar eru á fyrri samningi aðila, í pdf skjali.

Sjá hér samning LÍV og SA frá 2008
Hér má sjá heildarkjarasamning ASÍ og SA.
Hér má sjá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð kjarasamninga.

Helstu atriði samningsins

Almennar launahækkanir á næstu þremur árum eru 11,4% en hækkun lágmarkslauna er þó mun meiri eða 23,6%.  50.000 króna eingreiðsla kemur til útborgunar þegar samningarnir hafa verið samþykktir í atkvæðagreiðslu og aðrar 25.000 krónur í tveimur greiðslum síðar á árinu.

Almenn hækkun
1. júní 2011 4,25%
1. febrúar 2012 3,50%
1. febrúar 2013 3,25%

Krónutöluhækkun á taxta
1. júní 2011  kr. 12.000
1. febrúar 2012 kr. 11.000
1. febrúar 2013 kr. 11.000

Lágmarkstekjutrygging í dagvinnu
1. júní 2011     kr. 182.000
1. febrúar 2012   kr. 193.000
1. febrúar 2013   kr. 204.000

Eingreiðslur
Eingreiðsla í júní kr. 50.000 fyrir starfsmann í fullu starfi í mánuðunum mars-maí. Starfsmenn sem létu af störfum í apríl eða eru í hlutastarfi fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í mars og apríl. Starfsmenn sem hófu störf í apríl og verða í starfi til 5. maí fá hlutfallslega greiðslu miðað við starfstíma í apríl og maí.

Álag á orlofsuppbót 2011 kr. 10.000
Álag á desemberuppbót 2011 kr. 15.000

Forsenduákvæði gagnvart ríkisvaldinu verður seinni partinn í júní.

Kjarasamningurinn gildir til 31. janúar 2014, með endurskoðun í janúar 2012 og janúar 2013. Ákveðinn fyrirvari er á samningnum sem tengist stjórnvaldsaðgerðum og lagabreytingum sem þurfa að eiga sér stað fyrir 22. júní 2011. Ef þær forsendur sem snúa að stjórnvöldum standast ekki gildir samningurinn til 1. febrúar 2012.

Önnur ákvæði kjarasamnings öðlast strax gildi óháð því sem gerist við endurskoðun í júní.

Áætla má að heildarkostnaðarauki atvinnurekenda af kjarasamningnum verði um 12,6% á samningstímanum.

Jöfnun lífeyrisréttinda
Samhliða þessum kjarasamningi verður stigið markvisst skref í að jafna lífeyrisréttindi þar sem stefnt er að því að auka framlög í lífeyrissjóði úr 12% í 15,5% á árabilinu 2014-2020. Bókun er um að fyrir árslok 2012 verði komin niðurstaða um samræmt og sjálfbært lífeyriskerfi alls launafólks á vinnumarkaði.

Helstu ávinningar samningsins
Almenn launahækkun og eingreiðslur vegna tafa á gerð samnings.

Sérstök áhersla á hækkun lægstu launa með hækkun launataxta um allt að 21% og lágmarkstekjutryggingar um 23,6%.

Persónuafsláttur verður verðtryggður frá og með næstu áramótum.

Lagður grunnur að jöfnun lífeyrisréttinda landsmanna með markvissum hætti á árunum 2014-2020 en hér er um að ræða eitt mikilvægasta réttindamál launafólks um áratuga skeið.

Með kjarasamningnum er blásið til sóknar í atvinnulífinu með það að markmiði að draga úr atvinnuleysi, m.a. með ýmsum hvataaðgerðum til að treysta stöðu nýsköpunar og þekkingargreina ásamt orkufrekum iðnaði sem styðji við markmið ASÍ um að auka vægi grænna greina í hagkerfinu.

Átak verður sett af stað í þjónustu við atvinnuleitendur á vegum stéttarfélaganna og menntunarúrræði verða sett á oddinn bæði fyrir yngra fólk og þá sem komnir eru af skólaaldri.

Atvinnuleysisbætur og bætur almannatrygginga fá hliðstæða hækkun og þeir sem eru á lægstu töxtum.

Hækkun framlaga til Fæðingarorlofssjóðs og Ábyrgðarsjóðs launa tryggir launafólki rétt í fæðingarorlofi og launatap í gjaldþrotum fyrirtækja.

Starfsendurhæfingargjald lögfestir réttinn til endurhæfingar gagnvart öllu launafólki og þeim sem eru á örorkubótum lífeyrissjóðanna.

Af hálfu stjórnvalda koma til fjölmargar umbætur til að tryggja réttarstöðu launafólks s.s. við sölu fyrirtækja, framkvæmd útboðsmála og til að hefta svarta atvinnustarfsemi.

Ítarlegri upplýsingar má fá á heimasíðu ASÍ.

Deila á