Fundi lokið í karphúsinu

Viðræður hafa staðið yfir í dag á milli fulltrúa Framsýnar og Samtaka atvinnulífsins um gerð kjarasamnings fyrir starfsfólk á almennum vinnumarkaði.  Í upphafi lýstu fulltrúar Framsýnar yfir óánægju með gang kjaraviðræðna og að ekki skyldi vera löngu búið að semja, enda samningar búnir að vera lausir í tæpa 5 mánuði.  Var lögð mikil áhersla á að samningarnir yrðu kláraðir sem fyrst.

Á fundinum lögðu fulltrúar Framsýnar fram eftirfarandi tillögur til lausnar deilunni.

Tillögur til lausnar kjaradeilu Framsýnar- stéttarfélags og SA vegna kjarasamnings starfsfólks á almennum vinnumarkaði

Tillaga A

  • Tekjutrygging verði kr 200.000,- frá 1. apríl 2011.
  • Eingreiðsla kr. 50.000,- verði greidd við undirritun til að bæta fólki upp þann drátt sem orðið hefur á gerð kjarasamningsins.
  • Samið verði um nýja launatöflu sem taki mið af kr. 200.000,- tekjutryggingu.
  • Að þeim starfsheitum sem ekki eru þegar með röðun verði fundinn staður í nýrri launatöflu.
  • Þá verði í launatöflunni tekið tillit til góðrar stöðu útflutningsgreina.
  • Gildistími samningsins verði til 31. desember 2011.

Þó lýsir félagið því yfir að það sé tilbúið að semja til lengri tíma á þessum forsendum og með rauðum strikum.

Tillaga B

  • Eingreiðsla kr. 50.000,- verði greidd við undirritun og svo þrjár mánaðarlegar greiðslur að upphæð kr. 16.667,-, fyrir júní, júlí og ágúst.
  • Gildistími samningsins verði til 31. ágúst 2011.

Þá leggur Framsýn áherslu á að sérmál félagsins verði kláruð þegar í stað.

Í framhaldi af urðu umræður á fundinum um tillögur Framsýnar.  Niðurstaðan varð sú að Samtök atvinnulífsins vildu ekki hafna þessum leiðum heldur óskuðu fulltrúar SA eftir því að þeir fengju tækifæri til að skoða þær og að boðað yrði til fundar strax eftir páska þar sem farið yrði yfir þessi atriði, svo og þau sérmál félagsins, sem eiga við um ákveðnar starfsgreinar, sem enn eru óleyst.

Töluverðar umræður urðu einnig um atvinnumál í ljósi þess að Framsýn hefur verið umhugað um að SA myndi styðja við atvinnuuppbyggingu sem Framsýn hefur kynnt í sóknaráætlun sinni um atvinnumál.  Að sögn formanns Framsýnar urðu mjög málefnalegar og góðar umræður um áætlunina.

Formanni Framsýnar varð því ekki að ósk sinni að hamingjueggin sem tekin voru með suður í morgun hefðu verið notuð í vöffludeig í dag eins og vonast hafði verið til, en þess er vænst að boðið verði upp á vöfflukaffi í karphúsinu strax eftir páska.

Deila á