Framsýn leitar eftir ungu fólki til starfa.

Framsýn stóð nýlega fyrir fundi með þjóðfundarsniði um stöðu félagsins og framtíðarsýn. Þar kom sterklega fram að mikilvægt væri að auka vægi ungs fólk í störfum félagsins, það er í nefndum stjórnum og ráðum.  Nú hefur verið ákveðið að leita að ungu fólki á aldrinum 18 – 35 ára sem er tilbúið að taka þátt í öflugu og skemmtilegu starfi Framsýnar. Áhugasamir eru beðnir um að hafa samband við Skrifstofu stéttarfélaganna í síma 464-6600 eða með því að senda póst á netfangið kuti@framsyn.is.

Þá má geta þess að á ársfundi ASÍ haustið 2010 var ákveðið að stofna þing ungs launafólks innan Alþýðusambands Íslands, ASÍ-UL sem Framsýn á aðild að. Rétt til setu á þinginu eiga einn fulltrúi hvers aðildarfélags ASÍ á aldrinum 18-35 ára. Stofnuð hefur verið undirbúningsnefnd til að halda utan um stofnun ASÍ-UL sem í sitja fulltrúar allra landssambanda og félaga með beina aðild. Undirbúningsnefnd stofnþings ASÍ-UL hefur ákveðið að efna til funda með ungu launafólki í öllum aðildarfélögum ASÍ-UL á næstunni. Markmiðið með þessum fundum er að víðtæk samvinna og samstaða skapist meðal ungs fólks í aðildarfélögum ASÍ. Þannig er mikilvægt að undirbúningshópur ASÍ-UL geti sótt hugmyndir, áherslur og stuðning frá ungu fólki í öllum aðildarfélögum ASÍ og jafnframt að félagslegt bakland verði til í aðildarfélögunum sem fulltrúar þeirra á þingum ASÍ-UL geti sótt til. Ákveðið hefur verið að efna til fundar með ungu launafólki á Norðurlandi 13. apríl nk. Á fundinum munu taka þátt ungt launafólk frá Einingu-Iðju, Framsýn, Verkalýðsfélagi Þórshafnar, Félagi verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri, Þingiðn, Félagi málmiðnaðarmanna á Akureyri, Rafvirkjafélagi Norðurlands, Sjómannafélagi Eyjafjarðar og Sjómannafélagi Ólafsfjarðar. Fundurinn verður haldinn í sal að Einingar- Iðju þann 13. apríl nk. og hefst kl. 17:00 og mun standa til kl. 20:00.

Framsýn leitar að ungu og kraftmiklu fólki í nefndir og ráð á vegum félagsins þar sem áhugi er fyrir því að gera þátt þeirra meiri í starfsemi félagsins.

Deila á