25 þúsund sjómenn farast árlega við störf

Sjómennska er hættulegasta starf í heimi samkvæmt tölum frá Alþjóðavinnumálastofnuninni ILO. Talið er að um 25 þúsund sjómenn farist árlega við fiskveiðar og tengd störf. Langflest eru dauðsföllin í þróunarlöndunum enda er öryggismálum þar víða mjög ábótavant. Þetta kemur fram í Fiskifréttum í gær.

Sverrir Konráðsson, sérfræðingur hjá Siglingastofnun, sat í janúar síðastliðinn fund undirnefndar um stöðugleika, hleðslumerki og öryggi fiskiskipa (SLF) hjá Alþjóðasiglingamálastofnuninni, IMO, í London.

,,Í raun veit enginn fyrir víst hversu margir farast við fiskveiðar á ári vegna þess að skráningu á dauðsföllum er víða ábótavant. Talan sem Alþjóðavinnumálastofnunin hefur tekið saman er nálgun og byggð á gögnum og tölfræði sem talin er áreiðanleg. Hæst er dánartíðnin talin vera í þróunarlöndunum þar sem öryggismál eru víða í ólestri og þar er slysaskráningin líka ónákvæmust og víða engin og sjóslysarannsóknir takmarkaðar.

Fiskveiðar í heiminum eru stundaðar með mjög mismunandi hætti, allt frá því að fólk standi á ströndinni og kasti út netum, rói frá landi á eintrjáningum eða stundi veiðar á stórum verksmiðjuskipum. Ástæður dauðsfalla eru því mjög mismunandi og atvikin sem skráð eru geta verið allt frá því að einstaklingur sem rær til fiskveiða út á Malavívatn að morgni skili sér ekki aftur að kvöldi, maður falli ofan í lest og láti lífið eða að stór fiskiskip farist á hafi úti,“ segir Sverrir í samtali við Fiskifréttir.

Hættulegasta starf í heimi

Talan um dauðsföll sjómanna er sláandi og allir sem láta sér annt um öryggi þeirra hafa verulegar áhyggjur af stöðunni. 25.000 á ári jafngildir því að 69 fiskimenn látist af slysförum á hverjum degi alla daga ársins og samkvæmt því er sjómennska hættulegasta atvinnugrein í heimi. Sem dæmi má nefna sýna tölur frá Bandaríkjunum að af hverjum 100.000 fiskimönnum deyja 160 árlega af völdum slysa við veiðar en það er 25 sinnum hærra tala en meðaltal dauðaslysa hjá öðrum starfsstéttum, að sögn Sverris.

Torremolinos-bókunin

,,Á fundinum í London var lögð áhersla á að Torrremolinos-bókunin svonefnda, sem snýst um öryggi fiskiskipa og samþykkt var á vettvangi IMO árið 1993, tæki gildi sem víðast, ekki síst í Asíuríkjum þar sem fjöldi fiskiskipa er mestur. Flestar Vesturlandaþjóðir hafa fullgilt bókunina og Íslendingar hafa innleitt öll ákvæði hennar auk íslenskra sérákvæða. Því miður hefur samþykktin ekki öðlast gildi á heimsvísu og víða er öryggi sjómanna mjög ábótavant.

Markmiðið í dag er að reyna að bæta öryggi sjómanna á fiskiskipum í þriðja heiminum og koma þeim á sama stig og á Vesturlöndum,“ segir Sverrir Konráðsson.

Deila á